Thursday, January 19, 2012

101 leið til að lifa heilsusamlegu lífi

Ég hugsa að flestar sem þjást af krónískum sjúkdómum hafi hugleitt að breyta einhverju hjá sér, í þeirri von um að sjúkdómurinn verði ei lengur til staðar. Ég er engin undantekning þegar kemur að því. Ég kannaði hvaða mat væri best fyrir gigtarsjúklinga að borða, hvað ég ætti að forðast, fór að stunda sund og jóga af miklum móð. Mér hefur aldrei verið eðlislægt að naga gulrót og borða hnetur til hátíðarbrigða. Engu að síður sá ég fyrir mér að eftir nokkra mánuði jafnvel vikur væri ég búin að ná þvílíkum tökum á þessum nýja lífstíl að það myndi vekja eftirtekt hvert sem ég færi. Auk þess trúði ég því að þetta yrði ekkert mál og eftir smá tíma myndi mér ekki detta í hug að borða nammi, drekka gos eða gúffa í mig kökum. 


7 árum seinna drekk ég gos, borða nammi, gúffa í mig kökum, þarf að beita mig hörku til að hlunkast í jóga og á líkamsræktarstöðina. Þetta varð sem sagt aldrei auðveldara. Ég verð því miður að viðurkenna að ég hef aldrei náð tökum á því að borða hollan mat og hreyfa mig. Þrátt fyrir það þá hefur kílófjöldinn aldrei náð að verða mikill. Líklegast því ég borða ekki alltaf óhollt, ég borða bara of oft óhollan mat. Maður myndi ætla að þegar maður þjáist af gigt sem hefur í för með sér verki og skerta hreyfigetu að það ætti að vera nógu mikið spark í rassinn til þess að huga alltaf að heilsunni. Í mínu tilviki hefur það ekki orðið til þess. Ég hef engu að síður í 7 ár leitað mér upplýsinga um hvað ég geti gert til að bæta ástand mitt. Ég hef fundið margt sniðugt og fróðlegt og prófað margt. En gallinn er að ég held ekkert af þessu út nema að borða óhollan mat. Mér hefur tekist að gera það án vandræða í mörg, mörg, mörg ár.

Mér líður vægast sagt ömurlega yfir því að hafa aldrei náð þeim markmiðum sem ég hef sett mér. Ég geri mér engar grillur um að breytt matarræði og hreyfing muni verða til þess að gigtin hverfi. Mér finnst engu að síður að ég ætti að gera það sem er gott fyrir líkamann minn. Það er staðreynd að það er betra fyrir okkur að borða mat í hóflegu magni, borða hollan mat og hreyfa okkur reglulega heldur en að borða yfir okkur, sleppa allri hreyfingu og úða í okkur óhollustu. 


Ég hafði hugsað mér að nota þetta blogg til að hjálpa mér að taka skynsamlegri ákvarðanir þegar kemur að heilsunni. Kannski verður það mér meira aðhald að þurfa skrifta reglulega á bloggi. 

No comments:

Post a Comment