Sunday, January 1, 2012

Gigtarplágan

Þegar ég var í framhaldsskóla sagði einn kennari við mig að ég skrifaði í skeytastíl. Ég mun leggja mig allan fram um að setja meira kjöt á beinin á þessu bloggi.

Ég var 23 ára þegar ég veiktist af gigt. Það tók þó nokkurn tíma að finna út hvað var að og síðan að finna lyf og í þrjú ár var ég mjög illa haldin af gigtinni. Átti erfitt með öll verk og þjáðist auk þess af óbærilegum verkjum. Ég fékk heilmikinn bata að lokum, gat klárað háskólanám mitt og farið út á vinnumarkaðinn. Ég byrjaði í 100% vinnu og það var langt í frá að vera auðvelt. Engu að síður var yndislegt að vera loksins komin aftur út á vinnumarkaðinn. Ég átti þokkalegt líf þar sem verkir voru í lágmarki og ég gat unnið öll helstu verk þó gigtin hafi háð mér í mörgu. Það kom síðan að því að maðurinn minn og ég ákváðum að tími væri kominn til að fjölga mannkyninu. 

Ég hætti á lyfjunum, hætti í vinnunni því án gigtarlyfjanna verð ég algerlega óvinnufær. Tíminn leið og leið og lítið gerðist. Ég átti gríðarlega erfitt með að hætta að vinna að auki kveið ég framhaldinu. Því ég var engan veginn búin að gleyma þeim kvölum sem gigtinni fylgdu og gremjunni sem kemur upp þegar ég get ekki gert einfalda hluti líkt og að greiða mér og tannbursta. Síðasliðið sumar komust við að því að von væri á erfingja. Við tók mikil hamingja. Mér fór fljótlega að líða miklu skárr af gigtinni og verkirnir minnkuðu til muna. Ég á von á mér í byrjun næsta árs. 

  • Í sjö ár hef ég haft gigt
  • Í sjö ár hef ég fundið til
  • Í sjö ár hef ég átt erfitt með að hreyfa mig
  • Í sjö ár hef ég prófað ýmislegt til að losna við gigtina


Nú langar mig meðan ég bíð eftir komu erfingjans að skrifa um hvað er hægt að gera til að halda gigtinni niðri. 

No comments:

Post a Comment