Monday, January 2, 2012

SÍÐASTI DAGURINN!

Ég veit ekki hversu marga síðasta daga ég hef átt síðan ég greindist með gigt. Síðasti dagurinn sem ég ætla að drekka kók, síðasti dagurinn sem ég ætla að borða nammi, síðasti dagurinn sem ég ætla að borða eldaðan mat, síðasti dagurinn sem ég ætla að borða sykur, síðasti dagurinn sem ég ætla að borða eldaðann mat. Ég gæti haldið áfram í allan dag. 

Yfirleitt endar þetta á sama veg, ég held þetta út í nokkra daga, jafnvel vikur og á endann fæ ég mér kók eða nammi eða sykur eða hvað það var nú sem ég ætlaði ALDREI aftur að láta inn fyrir mínar varir. 

Þessu fylgir síðan tímabil þar sem ég ásaka sjálfan mig fyrir að geta ekki haldið þetta út. 

Skemmtilegt eða þannig!

Ég hef enn sem komið er ekki búið mér til neinar stórkostlegar áætlanir um heilsusamlegt líferni annað en að byrja að blogga. Innst inni vona ég auðvitað til þess að með því að blogga þá komi allt hitt áreynslulaust. Áður en ég viti af muni ég fúlsa við öllu sem er með sykurörðu í. Auðvitað veit ég það mun ekki gerast, ég held samt í vonina. 

Mér hefur ekki tekist að halda út eina einustu áætlun sem miðar að því að lifa heilsusamlegu líferni í þeirri von að gigtin verði viðráðanlegri. Þess vegna er ég núna treg til að verða með miklar yfirlýsingar um hve hátt ég stefni. Því ég nenni hreinlega ekki lengur að skamma sjálfan mig fyrir að ná ekki þeim óraunhæfu kröfum sem ég set mér. 

Þetta er nýtt fyrir mér. Ég er nefnilega mjög mikið fyrir áætlanagerð. Ég veit að ég vil vera betri af gigtinni, mig langar til að hreyfa mig meira og borða hollari mat. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki einustu hugmynd um hvernig ég á að fara að þ.e.a.s. ég veit ekki hvernig ég á að bera mig af til þess að ná árangri. Ég veit samt alveg hvað ég á að gera en þó ég viti hvað ég eigi að gera þá verður það því miður ekki til þess að ég fari eftir því, þar stendur hnífurinn í kúnni. 

No comments:

Post a Comment