Monday, January 16, 2012

verkir+bólgur=grípa þarf til róttækra aðgerða

Í dag eru 36 dagar í settan dag hjá mér. Gigtarlega séð hefur meðgangan gengið vonum framar. Ég hef ekki tekið verkjatöflu síðan í sumar og hef verið nokkuð laus við verki og bólgur. Það hefur verið yndislegt að fá frí frá gigtarskömminni. Nú þegar styttist í annan endann er eins og gigtin sé að vakna aftur til lífsins:( Hnéið og ökklinn byrjaðir að bólgna upp og ég er farin að finna fyrir hægri höndinni ásamt því að eiga erfiðara með sitja. 

Ég verð að viðurkenna að fyrir utan almennan pirring yfir því að vera aftur illt þá fyllist ég kvíða. Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því að sinna ungabarni ef hendur og fætur loga af sársauka og láta ekki af stjórn. Við tókum þá ákvörðun að við yrðum heima saman í 6 mánuði því við vitum í raun og veru ekkert hvernig ég verð eftir fæðinguna. Þrátt fyrir að ég viti að maðurinn minn verði með mér þá er ég engu að síður hrædd um að ég muni ekki geta sinnt barninu jafn mikið og ég vildi. Ég velti þvi einnig fyrir mér hvernig maður fer að einbeita sér að umönnun ungbarns þegar sársaukinn útaf gigtinni lamar mann. 

Það er því ekki seinna vænna að grípa í taumana og grípa til róttækra aðgerða. Ég trúi því að með því að borða hollan, bólguhemjandi mat og hreyfa mig reglulega þá muni ég vera betri af gigtinni en ef ég gerði það ekki. Gallinn við þessa aðferð er þegar ég fóðra sykurskrímslið og læt eftir letiskrímslinu þá verð ég svo vond við sjálfan mig. Skamma mig allan daginn yfir því að vera svona mikill aumingi að geta ekki haldið þetta út. 

No comments:

Post a Comment