Monday, April 16, 2012

Engiferseyði

Ég fer rólega af stað í "nú tek ég þetta með trompi og borða bara hnetur og gras" Ég skírði um helgin og hef verið önnum kafin að stússast í þeim undirbúningi. Allt þetta gekk saman, daman fékk nafn og gestir fengu nóg að eta. Ég verð að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég hefði alveg getað gefið mér tíma til að fara út að ganga þessa vikuna. Tvennt kom í veg fyrir það, annars vegar gigtarþreyttir fætir og hins vegar tók ég þeirri afsökun "það er svo mikið að gera hjá mér út af skírninni" fegins hendi og notaði þá afsökun óspart.

Vikan var þó ekki alslæm. Pabbi kom í skírnina og sauð handa mér rótsterkt engifer seyði. Seyði hans pabba svíkur engann og mér finnst bjúgurinn vera minni hjá mér þegar ég hef verið duglega að drekka engiferseyðið. Margir gigtarsjúklingar berjast við bólgur í liðum, ég er ein af þeim. Ég er því ávalt á höttunum á eftir einhverju bólgueyðandi. Engiferrót ku vera harla bólguhemjandi.

Monday, April 9, 2012

Einu sinni enn

Mér finnst ég vera vonlaus þegar kemur að því að borða hollan mat og hreyfa mig. Einu sinni enn ætla ég að taka á mínum stóra og kippa öllu í liðinn á núll einni. Verða frísk ekki seinna en á morgun. Lífið er töluvert betra eftir að ég byrjaði aftur á gigtarlyfjunum. Ég neita því ekki að það er helvíti erfitt að vera með smábarn á handleggnum verandi gigtveik. Ég er þó heppin að litla snúllan mín er ósköp vær og góð. Engu að síður finn ég fyrir því í flestum liðum og vöðvum að ég þarf að huga betur að heilsunni. Það fer bara svo sjúklega í taugarnar á mér að ég þurfi eina ferðina enn að taka til í þessum málum. Í ljósi þess að ég er búin með að vera með þessa bölvuðu gigt í að verða 8 ár þá finnst mér að ég ætti fyrir löngu að vera komin á þann stað í lífinu að ég borðaði einungis mat sem væri bólguhemjandi, iðkaði jógaæfingar af kappi, færi reglulega í sund og stundaði lyftingar. 

Ég á alveg mína spretti en ég er þessi týpa sem set ekki salt út á hafragrautinn af því að salt er ekki gott fyrir bólgur en fer síðan seinna um daginn út í sjoppu og kaupi mér kók og prins póló. 

Það er erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og ég velti fyrir mér af hverju í andskotanum stend ég mig ekki betur í þessum málum? Ætti það ekki að vera nógu mikið spark í rassin að búa við skerta hreyfigetu og þráláta verki?  Maðurinn minn sem þjáist ekki af gigt, finnur ekki til og á ekki í neinum erfiðleikum með að hreyfa sig á ekki í neinum vandræðum með að borða hollan mat og hreyfa sig. Hann lifir svona 10 sinnum heilbrigðara líferni heldur en ég þrátt fyrir að hann setji salt út á grautinn sinn. 

Ég veit að það er enginn töfralausn, ég veit hvað ég þarf að gera, ég veit hvað virkar en samt sit ég hér og skrifa enn einu sinn enn um með hvaða hætti ég ætla að lifa hinu fullkomna heilbrigða líferni. Ég veit ekki hversu oft ég hef skrifað í dagbókina mín, bloggið, talað um það við vinkonur mínar um hvernig nú eigi að taka á því en nokkrum vikum seinna er allt komið í sama farið og ég byrja á enn einum "Einu sinni enn pistlum"

Sunday, April 1, 2012

Gigt og framtíðarheimilið

Það er tvennt sem á hug minn allan um þessar mundir, gigt og framtíðarheimilið

Gigt

Gigtin hefur verið minn fylgdarsveinn síðustu árin.  Mér gengur töluvert verr að losna við hana en ég hef óskir um. Það eru fimm vikur síðan litli sólargeislinn minn kom í heiminn. Mér til mikillar armæðu fékk ég verki og bólgur næstum um leið og ég var búin að eiga. Það var því ekkert annað í stöðunni en að byrja aftur á gigtarlyfjunum. Það er dásamlegt að vera komin aftur á lyfin en jafnvel þó ég gleypi gigtarlyf á hverjum degi þá næ ég aldrei fullkomnum bata. Ég bind vonir að með inntöku gigtarlyfja og sjúklega hollu líferni þá sé möguleiki á að verða algóð. Vandinn er að ég mun seint lifa sjúklega hollu líferni. 

Framtíðarheimilið

Maðurinn minn er í doktorsnámi í Bandaríkjunum, námið hans tekur fimm ár. Hann klára þriðja árið sitt í vor og á þá tvö ár eftir. Það þýðir að það eru að minnsta kosti tvö ár þangað til að við getum farið að sanka að okkur búslóð fyrir framtíðarheimilið okkar. Ég verð 31 árs á þessu ári. Ég get ekki lýst því hversu mikið  ég þrái að komast í íbúð sem við munum vera lengur í en 1 ár og geta loksins byrjað að sanka að mér allskonar dóti og drasli. Þangað til að sá draumur verður að veruleika þá læt ég mig dreyma um hvernig framtíðarheimilið okkar muni líta út.