Monday, April 9, 2012

Einu sinni enn

Mér finnst ég vera vonlaus þegar kemur að því að borða hollan mat og hreyfa mig. Einu sinni enn ætla ég að taka á mínum stóra og kippa öllu í liðinn á núll einni. Verða frísk ekki seinna en á morgun. Lífið er töluvert betra eftir að ég byrjaði aftur á gigtarlyfjunum. Ég neita því ekki að það er helvíti erfitt að vera með smábarn á handleggnum verandi gigtveik. Ég er þó heppin að litla snúllan mín er ósköp vær og góð. Engu að síður finn ég fyrir því í flestum liðum og vöðvum að ég þarf að huga betur að heilsunni. Það fer bara svo sjúklega í taugarnar á mér að ég þurfi eina ferðina enn að taka til í þessum málum. Í ljósi þess að ég er búin með að vera með þessa bölvuðu gigt í að verða 8 ár þá finnst mér að ég ætti fyrir löngu að vera komin á þann stað í lífinu að ég borðaði einungis mat sem væri bólguhemjandi, iðkaði jógaæfingar af kappi, færi reglulega í sund og stundaði lyftingar. 

Ég á alveg mína spretti en ég er þessi týpa sem set ekki salt út á hafragrautinn af því að salt er ekki gott fyrir bólgur en fer síðan seinna um daginn út í sjoppu og kaupi mér kók og prins póló. 

Það er erfitt að horfast í augu við sjálfan sig og ég velti fyrir mér af hverju í andskotanum stend ég mig ekki betur í þessum málum? Ætti það ekki að vera nógu mikið spark í rassin að búa við skerta hreyfigetu og þráláta verki?  Maðurinn minn sem þjáist ekki af gigt, finnur ekki til og á ekki í neinum erfiðleikum með að hreyfa sig á ekki í neinum vandræðum með að borða hollan mat og hreyfa sig. Hann lifir svona 10 sinnum heilbrigðara líferni heldur en ég þrátt fyrir að hann setji salt út á grautinn sinn. 

Ég veit að það er enginn töfralausn, ég veit hvað ég þarf að gera, ég veit hvað virkar en samt sit ég hér og skrifa enn einu sinn enn um með hvaða hætti ég ætla að lifa hinu fullkomna heilbrigða líferni. Ég veit ekki hversu oft ég hef skrifað í dagbókina mín, bloggið, talað um það við vinkonur mínar um hvernig nú eigi að taka á því en nokkrum vikum seinna er allt komið í sama farið og ég byrja á enn einum "Einu sinni enn pistlum"

No comments:

Post a Comment