Wednesday, May 9, 2012

Sjúkraþjálfun

Ég fór í minn fyrsta tíma í sjúkraþjálfun í langan tíma, það eru liðin 7 ár síðan síðast. Líkt og flestar sem hafa glímt við króníska sjúkdóma þá í byrjun reynir maður margt. Eftir því sem tíminn líður þá hættir maður smátt og smátt í tilraunastarfsemi. Í mínu tilviki þá snerist þetta fyrst og fremst um peninga. Ég hafði einfaldlega ekki pening til að fara í sjúkraþálfun, nudd, sund, ræktina, nálastungur, svæðanudd og fleira sem hjálpar til við að vinna á bólgum og verkjum. Ég bind töluverðar vonir við sjúkraþjálfunina. Í morgun nuddaði hún á mér iljarnar og ég er ekki frá því að ég sé aðeins skárri í fótunum. Í næstu tveimur tímum munum við hittast í tækjasal og hún lætur mig fá æfingaáætlun. 

Nú þegar tæplega þrír mánuðir eru liðnir síðan ég átti stelpuna er nokkuð ljóst að ég þarf að leggja töluvert á mig til að losna við verkina og bólgurnar. Fyrst eftir að ég byrjaði á lyfjunum þá fann ég mikinn mun en síðan er eins og að maður rekist á vegg og batinn hættir. Eins og staðan er í dag þá ég í töluverðum erfiðleikum með að ganga á milli herbergja, ég get ekki farið í göngutúra og herðablaðið minnir á sig með stífleika og verkjum. 

Ég er svo löngu komin með upp í kok að hafa þessa gigt. Ég vildi að til væri töfralausn.

No comments:

Post a Comment