Friday, August 3, 2012

Hvítur sykur


Mér hefur farið aftur undanfarnar vikur. Ég átti litlu snúlluna mína í febrúar. Ég fór strax aftur á lyf og varð betri með hverjum degi. Síðustu dagar og jafnvel vikur hafa aftur á móti verið mjög erfiðar. Ég á mjög erfitt með gang og er kvalin. Sterar voru því teknir upp aftur en þeir hafa sínar aukaverkanir og til langframa hafa þeir slæm áhrif á líkamann.

Ég veit ekki hversu oft ég hef prófað að sleppa öllum sykri, hveiti, salti, aukaefnum, litarefnum, unnum kjötvörum, elduðum mat og mistekist hrapalega. Það er vond tilfinning að ætla sér eitthvað til að bæta heilsuna og mistakast. Ég er óvægin við sjálfan mig og eyði dögunum eftir mistök í allsherjar niðurrif. Í sumar hef ég borðað æ meira af nammi, bakarískruðerí, snakki, gosi, kökum, kexi. Á mánudaginn þá ætla ég alltaf að taka heragann á þetta og sleppa öllum óhollum mat. Viti menn, mánudagurinn kemur til þess eins að ég stend ekki við stóru orðin og eyði restinni af vikunni í að skamma sjálfan mig fyrir aumingjaskapinn. Í gær þá tókst mér að komast í gegnum daginn án þess að hvítur sykur færi inn fyrir mínar varir. Mér líður eins og ólympíumeistara. Í þetta sinn ætla ég að reyna að gera hlutina aðeins öðruvísi. Ég ætla bara að einbeita mér að því að sleppa hvítum sykri. Ég ætla ekki að reyna að sleppa öllu hinum, það er of mikið fyrir mig, ég spring á limminu. Sumir geta byrjað einn daginn og sleppt því að borða sykur í hvaða formi sem er, hveiti, aukaefni o.s.frv. Ég hef margreynt það og mér tekst það ekki. Það eina sem gerist er að mér mistekst og ég eyði síðan næstum dögum og vikum í að segja sjálfri mér hvað ég sé ómöguleg og geti aldrei gert neitt rétt. Í dag ætla ég klappa sjálfri mér á bakið fyrir að hafa komist í gegnum gærdaginn án þess að borða sykur.

Er hvítur sykur rót alls hins illa?
Það eru mjög skiptar skoðanir um sykurneyslu og hvort hún hafi áhrif á gigt. Þegar ég hef borðað mikið sykri þá líður mér verr. Hvítur sykur inniheldur engin nauðsynleg vítamín eða steinefni engu að síður er sykur mjög hitaeiningaríkur. Það er óhætt fyrir líkamann að hætta að borða hann því líkaminn þarfnast hans ekki. Sykur er:
Fitandi
Bjúgmyndandi
Næringarlítill
Tannskemmandi
 og síðast en ekki síst þá getur sykur verið bólguhvetjandi 

Thursday, August 2, 2012

Dagurinn í dag

  • Hlutirnir hafa ekki gengið vel að undanförnu. 
  • Mér hefur farið aftur
  • Ég er grautfúl yfir því
  • Vigtin sýndi 84,2 kg í morgun

Stöðutékk:

Verkir
Hægri hönd léleg, vægir verkir, finn fyrir henni,
Báðir fætur þreyttir, sérstaklega kálfar, verkir, hægra hné lélegt, þreyta og verkir í iljum, erfitt að ganga,
Hægri háls, finn fyrir honum, verkir,
Axlir, mikil vöðvabólga,
Hægri kjálki, verkir,
Hægri hlið slæm.
Alltof þung eða 84,2 kg

Lyf
Tek lyfin samviskusamlega, metrotrextrat 8 töflur einus sinni í viku, salozopyrin 2 töflur tvisvar á dag, voltaren rapid og parkódín eftir þörfum

Heilsubót
Ég drekk engiferseyði, 2. ágúst 2012 byrjaði að sleppa hvítum sykri, ég nota vöðvaolíu frá Urtaverksmiðjunni á vöðvabólguna og vöðva- og liðagaldur frá Villimey á fætur og hendur.