Sunday, October 7, 2012

Jóga fyrir gigt

Það eru komnar tvær vikur síðan ég keypti mér 20 tíma jógakort hjá jógastöð. Þegar ég veiktist fyrst þá keypti mér jóga-disk eftir Guðjón Bergmann. Ég var mjög dugleg að gera æfingar heima og þær hjálpuðu mér þó nokkuð. Það var sérstakleg gott að geta keypt jógadisk því á þeim tíma réð ég ekki við að ganga niður stigann, fara út í bíl, keyra, ganga inn í jógastöðina, gera æfingar og koma mér heim. Á þeim tíma komst ég varla úr stofunni inn í eldhús án hjálpar. Það var ömurlegur tími.

Á meðgöngunni fór ég í meðgöngu jóga. Það var í fyrsta skipti sem ég fór í alvöru jógatíma. Ég verð að segja að það er þvílíkur munur að komast í jógatíma hjá jógakennara. Hérna úti fann ég litla krúttlega jógastöð og byrjaði fyrir tveimur vikum. Ég valdi rólega tíma en þeir taka engu að síður vel á. Mér gekk vel þangað til ég fór óvart í Vinyassa flow tíma, nafnið gefur til kynna að þetta sé rólegt og þægilegt. Ekki alveg, ég hélt að ég myndi deyja í tímanum og hef ekki farið aftur í jógatíma. Þurfti að jafna mig.

Jóga æfingar eru að gera góða hluti fyrir gigtina. Mér finnst ég vera ögn skárri og hafa meiri orku.

Mér hefur tekist að vera án steranna í viku og vigtin byrjar þá niðurleið sína eiginlega um leið. Þegar ég kom hingað út þá var ég rúmlega 86 kg en núna er ég orðin 82 kg. Þetta eru ekkert smá háar tölur. Ég hef aldrei verið svona þung áður. Ég kenni barnsburði, sterum í kjölfarið og óhóflegu áti um. Ég hef látið af óhóflegu áti sem ég held að eigi stærsta þátt í kílóa tapinu.

Mér finnst 4 kíló vera bara dropi í hafið.

No comments:

Post a Comment