Sunday, December 16, 2012

3 mánuðir

16. desember hefst nýja átakið mitt. Ég hef fyrir löngu gefist upp á lífstílsbreytingum og vil kalla hlutina réttu nöfnum sem er átak fyrir mig. Þegar ég hætti að reykja þá gerði ég það í nokkrum áföngum, ég byrjaði að hætta að reykja fyrir alvöru haustið 2009 það var ekki fyrr en maí 2011 sem ég hætti að reykja. Síðasta skiptið, þessi tvö litlu saklausu orð valda skammhlaupi í heilanum hjá mér. Haustið 2009  flutti ég erlendis, ég gerði samning við sjálfan mig, úti bannað að reykja, heima á íslandi leyfilegt að reykja. Þegar ég var að deyja fyrstu vikurnar haustið 2009 þá var það mér mikil huggun að vita af því að jólafríið væri á næsta leyti þar sem ég myndi getað reykt mér til óbóta. Vorið 2011 flutti ég heim til Íslands og þá var þetta búið spil, engin sígó. Ég svindlaði að vísu og reykti þegar ég kom til Íslands en hætti þegar eiginmaður kom, hann flutti þremur vikum á eftir mér. Ég hef verið reyklaus í 1 ár og 7 mánuði. Ég hef aldrei verið reyklaus svona lengi síðan ég byrjaði að reykja. Langbesta tilfinningin við að hætta að reykja er að núna vil ég ekki reykja (fyrir utan þegar ég er orðin ógisslega full og allar vinkonur mínar eru að reykja þá fer mér að finnast reykingar vera snilldarhugmynd).  Þegar ég reykti og fólk sem var hætt í langan tíma var að tala um að því langaði ekki lengur til að reykja þá trúði ég þeim aldrei. Þetta er þó satt.

Hlutirnir hafa gengið ágætlega fyrir sig síðustu mánuði, ég iðka jóga reglulega, borða minna og hollara, er í stuðningshópi fyrir konur sem hafa orðið fyrir kynbundu ofbeldi, hef misst kíló, 8 kíló. Það er þó ekki nóg, gigtarlyfin eru farin að virka en verkirnir og skert hreyfigeta er ekki á undanhaldi. Litla snúllan stækkar með hverjum deginum og það er mér ofraun að fara með barnið í göngutúr. Það er fokking ömurlegt. Í dag fór ég í göngutúr sem varði í u.þ.b. 20 mínútur með littlu snúllunni. Þegar við komum heim þá var ég ekki rólfær fyrr en eftir fjóra klukkutíma. Af þeim loknum treysti ég mér til þess að staulast um íbúðina en það var engin leið fyrir mig að sinna einföldustu heimilisverkum hvað þá að sinna barninu. Litla snúllan er heppin að eiga ekki gigtveikan föður og hann getur því tekið við þegar ég er rúmliggjandi. Fyrir utan hvað það er niðurdrepandi að geta ekki gert jafn einfaldan hlut líkt og að fara í göngutúr með barninu sínu þá er þetta auka álag á hjónabandið.

Jólin eru eftir nokkra daga og hátíðirnar eru aldrei góður tími fyrir að byrja í átaki. Ég ætla engu að síður að byrja núna í stað þess að bíða eftir nýja árinu. Það verður bara frí um jólin og haldið síðan áfram eftir jólin.

Um hvað snýst nýja átakið?

Jógaæfingar 6 daga vikunnar
Styrktaræfingar 6 daga vikunnar
Hveiti og sykurlaust matarræði 7 daga vikunnar

#Í dag hef ég gert jógaæfingar í þrjá daga í röð og það er meiriháttar og minnkar verkina. Það er kannski of metnaðarfullt að stefna á 6 daga vikunnar en mér finnst vera kominn tími á að skipta um gír og leggja harðar að mér. #Maginn á mér er gífurlega slappur eftir meðgönguna, ég hef verið nokkuð dugleg að gera styrktaræfingar á morgnana en maginn er enn slappur og mjóbakið er enn veikt og því full ástæða til að iðka þær sem oftast, ég þarf á þeim að halda. #Ég á nokkuð auðvelt með að gera styrktaræfingarnar sex sinnum í viku, það er ögn meiri áskorun að gera jógaæfingarnar sex sinnum í viku en það er viðráðanlegt. Matarræðið er stærsta áskorunin, síðustu ár hef ég vanið mig á að verðlauna mig og hugga mig með mat, ég hef gert mat að forsendu þess að njóta viðburða og samverustunda og ég hef vanið mig á óhollan mat. Frá því í haust hef ég bætt mig mjög mikið, borðað minna og hollari mat en samt haldið áfram með fyrrnefnda þætti. Það er von mín að hveiti og sykurlaust matarræði minnki verkina, það er þess virði að prófa það í lengri tíma en ekki bara nokkra daga í einu líkt og ég hef verið að gera í haust. Ég er auk þess ennþá alltof þung þó ég hafi misst 8 kíló og ég vil vera komin aftur í kjörþyngd fyrir sumarbyrjun.

Yfirlit
16. desember-23.desember=8 dagar
24. desember-4. janúar=frí
5. janúar-16. janúar=1 mánuður, 12 dagar
17. janúar-16. febrúar=2 mánuðir, 31 dagar
17. febrúar-16. mars=3 mánuðir, 28 dagar
=79 dagar


No comments:

Post a Comment