Wednesday, September 4, 2013

Gigtarlíf

andvarp

Ég er búin að standa mig mjög vel, lifði miklu meinlætalífi í heilar fjórar vikur. Ég fann ekki mikinn mun en eiginmaðurinn fannst ég gera miklu meira heima við. Eiginmaðurinn stakk síðan af í 8 daga og síðan þá hef ég ekki náð alveg nógu góðum tökum á meinlætalíferninu aftur. 

Ég hef þó ekki þyngst né misst mig í vitleysu, 72,7 kg

En og þess vegna andvarpa ég þá þarf ég að halda áfram en ég hef mig ekki af stað aftur

Saturday, July 20, 2013

12 vikur í bata?

Ég las þessa grein um daginn og hef hugsað um hana síðan.

Er þetta hægt?

Þrír mánuðir á breyttu mataræði og hviss bang búmm, engir verkir og engin skert hreyfigeta!


Mér gengur vel, ég hef hægt og rólega tekið ýmislegt aftur út og mér líður betur. Ég hef hins vegar aldrei náð þremur mánuðum án sykurs, hveitis, mjólkurafurðar, dýraafurða líkt og drengurinn í greininni. Nú hugsa ég stanslaust um hvernig væri lífið án þess að finna til. Hvernig væri að vakna og finna ekki til. Hvernig væri að geta gengið án verkja?

Hugurinn er algerlega kominn á flug og ég er farin að leggja drög að 5 kílómetra hlaupi næsta sumar. 5 kílómetrar, ég get ekki gengið í 5 mínútur. Hvað ef það óhugsandi gerðist og ég héldi út í þrjá mánuði svona strangt matarræði. Hvað myndi gerast? Yrði ég 10 kílóum léttari og hlypi út um allt?

“Mommy,” he said, “my knees don’t hurt anymore”

Þessi setning situr í mér. Mér er ekki lengur illt í hnjánum! Verkir og sársauki hafa fylgt mér síðustu níu ár. NÍU ÁR. Ég hef fyrir löngu gleymt því hvernig verkjalaus líkami er, hvernig það er að getað hreyft sig án þess að finna til. Er von? Er þetta hægt?

Ég vil óð prófa jurt.- , glútenlaust, mjólkurafurðafæði í þrjá mánuði og sjá hver árangurinn sé. Vandinn er að mér tekst aldrei að halda neitt út! Ég gefst ALLTAF upp! Misgóðar ástæður sem leiða til þess að ég hætti og þarf að byrja aftur á nýjan leik. 

Tuesday, July 9, 2013

Vegan á nýjan leik

Enn veik, enn feit, enn illt, enn döpur


Ég vildi að hlutirnir væru öðruvísi. Ég væri frísk, grönn, glöð, án verkja og létt í lund. Einu sinni fyrir langa löngu þá var ég alltaf glöð, okei, kannski ekki alltaf glöð en ætíð létt í lund. 

Æi, þetta átti nú ekki að vera sjálfsvorkunarpistill heldur ætlaði ég að tala um daginn í gær. Mér hefur versnað mjög mikið að undanförnu. Þá þýðir ekkert annað en að bretta upp ermar og hefjast handa á nýjan leik. Síðasta vetur þá var ég mjög duglega að prófa mig áfram með ýmsa hluti, sumt virkaði, annað ekki. Helsti gallinn var úthaldið, ég sprakk alltaf á limminu EN engu að síður þá var eitt og annað sem ég áttaði mig á. 

Líkt og að:

drekka engiferseyði
gerast grænmetisæta-vegan
borða hráfræði
jógaæfingar

eru allt dúndurleiðir til að halda verkjum í lágmarki

Þannig að ég í gær byrjaði ég á nýjan leik að feta mig áfram í vegan-isma. Ég að sjálfsögðu var illa undirbúin og í augnablikinu á ég mjög erfitt með að hreyfa mig. Komst því hvorki í búð né gat eytt ómældum tíma í að dúlla mér við að útbúa fínar máltíðir. Engu að síður þá komst ég í gegnum daginn. Var reyndar orðinn mjög svöng um kvöldið. 

Einn dagur af vonandi mörgum í veganisma.

Tuesday, June 11, 2013

Uppgjöf eða byrjunin

Ég er búin að vera tvístígandi um hvað ég ætti að skrifa. Ætti ég að bera höfuðið hátt og láta sem allt gangi vel eða viðurkenna vanmátt minn gagnvart því að borða hollan mat.

Ég skil ekki af hverju ég á svona erfitt með þetta!

Undanfarin ár hef ég lesið blogg hjá fólki sem hefur breytt um lífstíl vegna heilsufarsvandamála og einn, tveir og bingó, fólk er orðið að heilsufrík sem lætur ekki sykurörðu inn fyrir sínar varir, hreyfir sig og stundar hugleiðslu. 

Á meðan hjakka ég bara enn í sama farinu

Wednesday, March 13, 2013

Að lifa með sóríasgigt

Það er liðið ár síðan ég byrjaði aftur á lyfjunum og árangurinn er ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég og aðrir fjölskyldumeðlimir erum orðin langeygð eftir einhverjum breytingum til hins betra en það þokast lítið. Snúllan er orðin 1. árs og gigtin gerir það að verkum að öll umönnun hennar er töluvert erfið. Þetta hefur líka leiðindar áhrif á hvað fjölskyldan getur gert saman, t.a.m. ein búðarferð verður til þess að lítið annað er hægt að gera þann daginn. Ef við gerum okkur glaðan dag og förum jafnvel í einn lítinn göngtúr þá lendir allt á eiginmanninum og ég er frá það sem eftir lifir dags. Þetta er ekkert líf. 

Staðan:
Verkir eru minni en oft áður, ég á mjög erfitt með dagleg heimilsverk, búðarferð er þvílíkt afrek, 5 mínúta gönguferðir er algert hámark, get ekki skrifað (skrifaði tvo minnismiði um daginn sem fór alveg með mig), á erfitt með að halda á einhverju þungu með hægri höndinni, ég get staðið í mjög takmarkaðan tíma. Ég get lítið hreyft mig, erfitt að ganga um í íbúðinni, get illa tekið til, get ekki eldað, ekki ryksugað. Gengur hægt að léttast en léttist þó alltaf eitthvað, 74,1 kg

Lyf:
8 töflur methotrexant, 2x2 salazoypyrin, bólgueyðandi og verkjalyf

Matur:
Ég borða mjög lítið af hveit og sykri en er ekki að sleppa því alveg. Er byrjuð að prófa mig áfram í hráfæði og borða sífellt fleiri hráfæðismáltíðir. Drekk 1/2 l af engiferseyði á dag, finnst það hjálpa mjög mikið til. Dregur úr bjúg og verkjum. 

Hvað næst:
Forðast hveiti og sykur eftir fremsta megni, helst sleppa því alveg. Blanda græna þeytinga og byrja að borða e. kale, ég held að ég fari ekki með fleipur þegar ég segi að það sé grænkál. Gera fleiri líkamsæfingar og drekka grænt te á hverjum degi. Það hefur eitthvað misfarist, mig langar minna í heita drykki eftir því sem hitinn hækkar. 
Vera góð við sjálfan mig og sleppa sjálsniðurrifnu

Monday, March 11, 2013

Líkamsrækt

Það hefur gengið afar illa í vetur að stunda líkamsrækt af einhverju viti. Helsta áskorun gigtarsjúklinga er að finna hinn gullna meðalveg því það er lítið gagn af líkamsæfingunum ef þær skilja mann eftir í mun verra ástandi. Líkt og þegar ég álpaðist óvart í vinaysa-jógatímann og var hálfan mánuð að jafna mig.

Ég keypti jóga-kort í upphafi vetrar, 20 tíma en á því miður enn eftir um 13 tíma, sem betur fer rennur kortið ekki út. Litla krílið er ekki enn komið á leikskóla sem hefur takmarkað möguleika mína til líkamsræktunar utan heimilis. Það stendur til að krílið byrji á leikskóla í sumar, tvo daga í viku. Þá ætti að skapast tækifæri til að nýta afganginn af kortinu. 

Það sem ég hef þó lufsast til að gera hér heima er:
Það er sannarlega kominn tími til að bæta fleiri æfingum inn í þessa litlu æfingarútínu.


Tuesday, March 5, 2013

Döðlukaka

Döðlukaka
eða öllu heldur döðlubitar hafa reynst mér vel þegar skykurskrímslið lætur á sér kræla og heimtar sitt. Áður fyrr þá var ég mjög smeyk við döðlur út af útliti þeirra, þær eru heldur ólystugar, og hafði því lítið haft af þeim að segja áður en ég fór að fikta við hráfæði.

Ótti minn reyndist ástæðulaus og döðlur eru himneskar og fyrir fólk líkt og mig sem eru óð í sykur þá standa döðlur fyrir sínu þegar reynt er að hemja sykurskrímslið. 

Fæturnir á mér hafa ekki enn komið til, ég á erfitt með að lýsa þeim veruleika þegar konu skortir þrek til að standa í lappirnar í fimm mínútur. Því ríður á að elda eingöngu fljótlegar uppskriftir.  Í döðlubitana fara einungis möndlur og döðlur.  Fyrst saxa ég möndlurnar í matvinnsluvél og síðan læt ég eina og eina döðlu falla ofan í þar til að allt hefur blandast vel og er farið að tolla saman. Þá er það eina eftir í stöðunni að búa til bita í allavegana gerðum.

p.s. tveir dagar án hveitis og sykurs

Friday, March 1, 2013

Afmælisveisla

Afmælisveisla stendur fyrir dyrunum, veislur geta verið kjörin tækifæri til að eiga notalega stund með sínum nánustu. Ég hef mjög gaman af því að halda veislur og enn skemmtilegra finnst mér að fara í veislur því þá slepp ég við uppvaskið. 

Undirbúningurinn fyrir veisluna hefur gengið ágætlega því við hjónin erum að ná laginu að miða umfang miðað við getu. Okkur langaði til að baka allt sjálf en þegar leið á vikuna varð ljóst að við værum heppin ef við næðum að baka eina tegund (sem tókst). 

Mér líður vel að hafa náð þeim áfanga að ætla mér og fjölskyldunni ekki of en á sama tíma er þetta erfitt og niðurdrepandi. Ég hef því átt ögn erfitt með mig þessa vikuna, þrátt fyrir áralöng veikindi þá er ég ekki enn búin að venjast því að geta minna en meðalgunnan og enn hef ég þrár og drauma líkt og ég væri heilbrigð og hraust manneskja. 

Verst finnst mér þó að mér líður eins og veikindin séu mér að kenna. Ef ég myndi borða hollara, hreyfa mig skynsamlega, iðka hugleiðslu og þar fram eftir götunum þá yrði allt í lagi og ég myndi ekki lengur þjást af sóríasgigt. 


Wednesday, February 20, 2013

Jóga og hráfæði

jóga og hráfæði
Ég hef fundið leiðina til bata, jóga og hráfæði. Síðustu mánuði hef ég verið á fullu í tilraunastarfsemi, ég hef prófað að sleppa hveiti og sykri í ákveðinn tíma, ég hef prófað hráfæði, ég hef prófað vegan og ýmislegt fleira. 

Sumt af þessu virkar líkt og

hráfæði og að sleppa hveiti og sykri

Ég finn umtalsverðan mun á mér þegar ég borða úper hollt, ég finn mun á mér þegar ég sleppi hveiti og sykri og þegar ég er vegan en mestan mun finn ég þegar ég borða hráfæði og stunda jóga. Ég tek lyfin mín samviskusamlega á hverjum degi ásamt vítamínum og bætiefnum og ef ég gæti gert slíkt hið sama með mataræðið þá yrði ég góð og jafnvel frísk. 

Einfalt

og þó gengur þetta ekki upp hjá mér. Matarundirbúningurinn er mér afar erfiður, ég hef ekki þol né styrk til að standa svo lengi í eldhúsinu. Umönnun litlu snúllunnar gerir mér líka erfitt um vik. Ég þarf að spara hvað ég stend mikið á daginn og geng til að eiga nóg til að getað séð sómasamlega um litlu snúlluna mín. 

Jafnvel

þó að ég kæmist yfir þær hindranir þá er björninn ekki unnin. ég þyrfti enn að hemja sykurskrímslið og þeirri baráttu tapa ég undantekningalaust. 

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

 1. Undirbúa mig
 2. Gæta þess að eiga öll hráefnin til
 3. Útbúa það sem ég get kvöldið áður
 4. Kaupa lakkrísrót
 5. Setja mataræðið í forgang
 6. Skipuleggja daginn út frá mataræðinu 
 7. Hafa hugann við lokamarkmiðið
 8. Gera þetta í vissan tíma, 22. febrúar er fyrsti dagurinn - 14. mars er síðasti dagurinn

Ég er svo þreytt á að vera veik og að gigtin haldi mér og fjölskyldu minni í heljargreipum sér. Ég á erfitt með að trúa því að þetta sé enn í gangi að ég sé enn veik eftir öll þessi ár.

Ég er líka öfundsjúk, alveg hrikalega öfundsjúk út í alla sem er frískir. Í dag fór ég í göngutúr með vinkonu minni sem gerði það að verkum að ég er alveg frá og ég er svo öfundsjúk út í hana að geta farið í göngutúr og verið bara hress eftir hann. 

Það er vont að vera öfundsjúk út í allt og alla, það er vond tilfinning en hún sprettur fram og ég á erfitt með að sleppa takinu af henni. 

Tuesday, February 19, 2013

Heilsublogg

heilsublogg

Undanfarna morgna hef ég borðað þetta græna sull, þrátt fyrir græna litinn þá er bragðið sætt og gott.

Þetta eru hráefnin, kíwi, pera, sellerí og engifer. Öllu skellt í matvinnsluvél, maukað og skellt í skál.

Uppskrift

Tuesday, February 12, 2013

Engiferseyði

Nú er kominn tími til að hefjast handa á nýjan leik. Það eru komnir c.a. 5 dagar síðan ég byrjaði aftur að borða sykur og hveiti og á þeim tíma hef ég þyngst oggupons en mér hefur ekki versnað neitt stórkostlega. Engu að síður þá ætla ég að prófa aftur að sniðganga hveiti og sykur því mér líður ögn betur og mér finnst eins og ég geti gengið meira. 


Fyrsta skref er að sjóða aftur engiferseyðið, mér líður umtalsvert betur þegar ég slurka þessu ofan í mig. Ég drekk það kalt, finnst það betra þannig og ég reyni að drekka hálfan líter á dag. Það gengur svona upp og niður að ná því markmiði. 
Engiferseyði

2 lítrar vatn
320 gr. engifer
 50 ml sítrónusafi    
60 ml agave síríp
4 g myntulauf 
Saturday, February 9, 2013

Leiðin til bata?

Nú er lokið litlu tilrauninni minni að sleppa hveiti og sykur. Ég stefndi á 30 daga en ákvað að ljúka henni á 18. degi. Af hverju hætti ég fyrr? ég var óumræðilega döpur allan tímann um leið og ég hætti og fékk mér brauð og fleira þá hvarf dapurleikinn líkt og hendi væri veifað.

Mér leið betur, verkirnir minnkuðu og mér fannst ég vera léttari á mér en ég var döpur og náði ekki að vinna á bug á því.

Ég er staðráðin í að gera þetta aftur, sleppa hveiti og sykri en ég þarf að vanda mig meira. Það vantaði greinilega eitthvað upp á hjá mér. Gallinn við að vanda sig meira er að ég er hræðilega óskipulögð og man aldrei eftir eftir að skrá hluti niður hjá mér.

Ég lærði eitt og annað af þessarri, ég þarf að sjóða og drekka engiferseyði. Ég finn minna til þegar ég geri það. Ég léttist mjög auðveldlega þegar ég sleppi sykri og hveiti. Ég var mjög döpur allan tímann sem gefur til kynna að mig vanti mikilvæg næringarefni í kroppinn. Það þarf að vera mun meiri regla á máltíðunum hjá mér. 

 • Engiferseyði 
 • Sleppa sykri og hveiti 
 • Borða hveitikímskökur reglulega
 • Kjöt?
 • Reglulegar máltíðir

Sunday, February 3, 2013

Horft tilbaka

Síðustu daga hef ég lesið mikið um gigt, aðallega hvað er hægt að gera til að losna við þennan fjanda. Ég er með sóríasisgigt, þó hagar hún sér engan veginn í samræmi við það. Sumt passar, annað ekki. Ég man fyrst þegar ég veiktist, það liðu um þrjár vikur frá því að ég kenndi mér fyrst meins þar til að ég gat ekki lengur gengið, tannburstað mig og svo framvegis. Þá fannst mér þetta alltaf vera tvískipt, annars vegar skerandi sársauki og hins vegar þá gat ég ekki lengur hreyft mig. Fyrst hélt ég að þetta væri bara beinhimnubólga og smá óþægindi í hægri ökkla. Hægri hliðin hjá mér hefur alltaf verið umtalsverð verri heldur en vinstri. Smátt og smátt fikraði sig þetta upp líkamann, mig fór að verkja í hnéin og í kringum þau, mjaðmirnar, neðst í hægri sjalvöðvanum, olnbogann, hendurnar, axlirnar, kjálkann (á tímabili var orðið erfitt fyrir mig að tala sökum verkja), nefið, augun, eyrun. Það var ekki staður á líkamanum sem ég fann til. Hægri hliðin byrjaði að bólgna út, hægri fóturinn er töluvert breiðari heldur hinn.

Fyrsta árið þá svaf ég ekki fyrir verkjum (h2004-2005), annað árið svaf ég en grenjaði nær daglega undan verkjum (h2005-v2006), seinni hluta þess árisins byrjaði að rofa aðeins til og eygði von um að hugsanleg gæti ég sigrast á þessu (h2006). Þriðja árið er í minningu dúndur ár, minni verkir, meiri hreyfigeta, sótti um vinnu (2007). Fjórða árið gekk bærilega, byrjaði að vinna, kom í ljós að 100% vinna var 100% vinna þ.e. ég átti ekkert afgangs þegar ég kom heim (2008). Fimmta árið, var verri eftir heilt ár í vinnu en samt alveg þokkaleg miðað við hvernig ég var í byrjun (2009). Sjötta árið, hætti á lyfjum til að verða ólétt, gekk vel framan af en í okt - nóv voru sárir verkir og skert hreyfigeta orðin viðvarandi (2010) Sjöunda árið var ömurlegt, ég var verri með hverjum degi enda ekki á neinum lyfjum þangað til að ég varð ólétt í júní 2011, þá hókus pókus varð öll önnur og fann tiltölulega lítið fyrir gigtinni alla meðgönguna (2011). Áttunda árið, litla snúllan kom í heiminn seint í febrúar, hókus pókus, daginn eftir fæðinguna mætti gigtin af fullum þunga aftur í hús. Það voru mér sár vonbrigði því ég hafði vonast til þess að geta haft hana á brjósti, við náðum tveimur dögum. Ég byrjaði aftur á lyfjunum og batinn hefur verið hægur, afskaplega hægur. Rétt eins og síðast duga lyfin ekki til þess að ráða að niðurlögum verkja né skertrar hreyfigetu. Því hefur var ýmislegt reynt þetta árið, árangurinn varð því miður ekki svo mikill (2012). Níunda árið, ég á erfitt með að meðtaka hvað tíminn hefur liðið. Í níu ár hef ég fundið til á hverjum einasta degi, átt erfitt með að hreyfa mig og óskað þess að ég verði betri, í dag er ég ekki í vinnu, ég get ekki sinnt öllum þeim skyldum sem fylgja því að reka heimili og ég get ekki farið í göngutúra með litlu snúllunni sem bráðum verður eins árs. (2013).

Vonandi verður 2013 árið þar sem gigtin lætur undan, ég mun lifa dag án verkja og get hreyft mig líkt og meðalgunna. 


Saturday, February 2, 2013

12 dagar búnir, 18 dagar eftir

Í dag er 12. dagurinn í tilrauninni enginn sykur-ekkert hveiti og mér finnst aðeins rofa til. Verkirnir í fótunum eru ekki jafn slæmir og þeir hafa verið undanfarna daga og í gær var fyrsti dagurinn í langan tíma sem ég gat sofnað. Alla þessa viku hef ég átt mjög erfitt með að festa svefn út af verkjum.

Það er töluverður léttir að fá smá hlé frá skerandi verkjunum núna þarf ég bara að glíma við verki og skerta hreyfigetu. 

Það eru 18 dagar eftir og ég verð að viðurkenna að ég hlakka mjög mikið til þegar þessu er lokið. Ég var að fletta í gömlum færslum og sá að ég hafði eitt sinn prófað að vera eingöngu á hráfæði í nokkra daga. Það er töluverð kúnst að vera á hráfæði en skemmtilegt. Ég er mjög hrifin af sniðugum mat og hráfæði samanstendur af helling af sniðugum mat. Ég prófaði sem sagt hráfæði í þrjá daga og samkvæmt gömlu bloggfærslunni fann ég gríðarlegan mun á mér. Ég er því svona aðeins að melta með mér hvort ég eigi að taka smá skorpu í næstu viku á hráfæði, tvo til þrjá daga. Vandinn er, að sem annað gigtveikt fólk þekkir, að þetta krefst umtalsverðs stúss í eldhúsinu sem er erfitt mig því ég get eiginlega bara staðið í svona 5-7 mínútur í einu. 

Mig langar samt til að láta vaða á það!

Friday, February 1, 2013

Hvað er til ráða

Staðan
Slæm, kemst ekki í gönguferðir, fætur mjög slæmir, erfitt með svefn sökum verkja, get einungis setið í stutta stund í einu, get ekki skrifað, fær mikinn verk neðst í hægri sjalvöðva ef ég skrifa mikið á lyklaborðið (líkt og nú), hægri fótur mjög slæmir frá ofan við ökkla upp að hægri hlið mjaðmar, get ekki eldað kvöldmatinn því ég get ekki staðið svo lengi, á mjög erfitt með tiltekt og svo framvegis. Dauði og djöfull, ekki alveg hefur gengið vel að undanförnu að losa mig við meðgöngukílóin og fæðingarorlofskílóin. 10 kíló farin síðan í haust, 76,4 kg

Lyf
sama og síðast nema nokkrar steratöflur sem fá að fljóta með

Matur
  Er í miðri 30 daga, sleppa hveiti og sykri tilraun. Það eru 12 dagar liðnir (klapp á öxlina) og ég finn smávæginlega mun á mér. Það er verkirnar hafa dvínað ögn, skerandi sársaukinn í hægri og vinstri fótum hefur dvínað, er nú bara verkir, mér finnst líkt og ég geti gengið meira heima við. Er töluvert léttari á mér. 

Heilsubót
Ég reyni að teygja á flesta daga, magaæfingar, handarmbeygur, alltaf á leiðinni í jóga, sem hefur ekki sömu áhrif og að fara í jóga. 

 Hvað næst?
Fyrst þegar ég veiktist þá trúðum ég og mamma því staðfastlega að einn daginn myndi ég aftur verða frísk, sú trú hefur dvínað undanfarin ár en ég hef nú ákveðið að grafa hana upp á nýjan leik. Hversu gaman væri á 10 ára gigtarafmælinu að vera orðin frísk. Ég hef eitt og hálft ár til stefnu. 

Matarræði, nú byrja aftur tilraunir með súper hollt matarræði sem drepur gigtina fyrir fullt og allt. Hráfæði í næstu viku í þrjá daga. 

Jóga, ég á kort og þarf að koma mér aftur af stað. Það er bara hægara sagt en gert því ég kemst bara á kvöldin og þá er ég búin á því en það er tími á sunnudaginn klukkan 11 sem er fínn fyrir mig. 

Engiferseyði og grænt te. Ég er búin að sjóða þrjá lítra, nú er bara að drekka það. Í hvert skipti sem ég er dugleg að drekka það þá finn ég mun á mér. Græna teið er fyrir sóríasinn, þvílík snilld að hafa dottið niður á te sem heldur blettunum fullkomnlega niðri. 

Vera góð við sjálfan mig

 

Monday, January 28, 2013

Án sykurs og hveiti

Ég var líkast til full metnaðarfull í síðasta pistli. Áætlanir þjóna sínum tilgangi og fyrir mig eru þær mjög gagnlegt tæki til að ná lokamarkmiðinu sem er að verða frísk. Það gekk illa að byrja aftur eftir jólafrí og ég endaði í ofursætindaáti, bætti á mig kílóum og verkir jukust fyrstu vikurnar í janúar. Fjölskyldan lagðist öll í veikindi og pestir hafa ekki enn yfirgefið okkur. 

Fyrir 8 dögum síðan tók ég mínum stóra og byrjaði aftur og það hefur gengið stórkostlega vel. Það er orðið afar langt síðan að mér hefur tekist svona vel til með matarræðið. Í dag er áttundi dagurinn. Átta dagar án þess að borða hveiti né sykur. Það hljómar kannski ekki mikið en það er fjandanum erfiðara að sleppa hveiti og sykri úr matarræðinu.

tekin héðan

Í fyrsta lagi er sykur eða hveiti í öllu, þegar ég segi öllu þá meina ég í öllu. 
Í öðru lagi líkaminn öskrar á hveiti og sykur
Í þriðja lagi þá hef ég verið þung á brún alla vikunaLífið verður ömurlegt án sykurs og hveitis og ég hef þurft að hafa mig allan við að hressa sjálfan mig við auk þess að hafa allt á hornum mér. Núna er þetta ögn auðveldara og ég hugsa að næsta vika verði mun léttari. Það munaði að vísu engu að ég skutlaði mér í næstu sælkeraverslun, sunnudaginn var, til þess að baða mig upp úr súkkulaði, smjöri og sykri. Þá rann upp fyrir mér að þó að ég sleppi hveiti og sykri þá hef ég mjög mikla þörf fyrir nammidaga. Ég gúffaði því í mig kókosdöðlum og svo fann ég hráfæðis-orkustöng sem jafnaðist á við mars og tókst að komast í gegnum daginn án þess að falla. Það var stór áfangi því ég fell alltaf. Ég held þetta út í þrjá til fjóra daga svo fell ég og þá úða ég í mig sælgæti og bakarískruðerí. 

Helsta ástæðan fyrir því að þetta gengur núna upp er að ég gerði veigamikla breytingu í hugsunarhætti. Yfirleitt þá segi ég við sjálfan, jafnvel þó að þér mistakist þá skiptir mestu máli hvað þú gerir eftir fallið. Hvort að eini súkkulaðimolinn verði að 300 molum. Þá hef ég lagt í hann og vonast eftir  að ég haldi átakið út með bros á vör. Núna þá viðurkenndi ég fyrir sjálfum mér að ég mun líklegast alla daga vilja hlaupa út í búð og kaupa mér sykur í tonnavís. Það sem gerist yfirleitt er að hugmyndin kviknar út af einhverju smávægilegu, svo mallar hún í huganum þangað til að ég er fallin í huganum og þá er það eina í stöðunni að fara út í búð og kaupa fjandans snúðinn. 

Núna tek ég á þessu líkt og með reykingarnar, það sem skiptir máli er ekki hvað ég geri eftir að ég er fallin heldur hvað ætla ég að gera þegar hugmyndin kviknar og hún mun kvikna oft og mörgum sinnum á dag. Það sem ég hef gert hingað til er að forðast ákveðnar aðstæður,  spyrja sjálfan mig þegar ég veit að kökur og gotterí er á boðstólnum, treystir þú þér til þess að fara þangað og ekki borða hveiti og sykur. Reyna að sjá fyrir mér aðstæðurnar, hvernig verður þetta ef ég borða ekki og svo framvegis. Aðalmálið er þó sætta mig við að þessar hugmyndir munu kvikna, ég mun þurfa að þrauka í gegnum það, ég þarf að segja við sjálfan mig að það sé ekki í boði og ef allt að ofantöldu virkar ekki þá hringi ég í eiginmanninn. Segi honum að ég sé að springa á limminu og hvað ég eigi að gera og svo framvegis. Auk þess setti ég tímamörk, þetta byrjar þennan dag og endar þennan dag. Þá veit ég að þetta mun taka enda og svo verðlauna ég sjálfan mig ríkulega eftir hvern dag. Fyrir hvern dag, fyrstu tvær vikurnar, þá fæ ég smá pening  (500 kr) til að eyða í algjöran óþarfa. 

Hingað til hefur þetta virkað og sykurþörfin hefur pottþétt minnkað um helming ef ekki meira. Ég er öll að koma til í skapinu og bjartsýn um að ég nái að halda þetta út. 

Þetta hefur ekki haft nein stórkostleg áhrif á gigtina, því miður. Ég byrjaði vikuna mjög illa, eiginmaðurinn þurfti að vera heima á mánudaginn því ég treysti mér ekki til þess að vera ein með snúlluna. Núna er ég aðeins skárri en fæturnir eru mér mjög erfiðir, ég á erfitt með gang (í íbúðinni), get setið takmarkað, miklir verkir fyrir ofan ökklana, erfitt að sofna fyrir verkjum.