Monday, January 28, 2013

Án sykurs og hveiti

Ég var líkast til full metnaðarfull í síðasta pistli. Áætlanir þjóna sínum tilgangi og fyrir mig eru þær mjög gagnlegt tæki til að ná lokamarkmiðinu sem er að verða frísk. Það gekk illa að byrja aftur eftir jólafrí og ég endaði í ofursætindaáti, bætti á mig kílóum og verkir jukust fyrstu vikurnar í janúar. Fjölskyldan lagðist öll í veikindi og pestir hafa ekki enn yfirgefið okkur. 

Fyrir 8 dögum síðan tók ég mínum stóra og byrjaði aftur og það hefur gengið stórkostlega vel. Það er orðið afar langt síðan að mér hefur tekist svona vel til með matarræðið. Í dag er áttundi dagurinn. Átta dagar án þess að borða hveiti né sykur. Það hljómar kannski ekki mikið en það er fjandanum erfiðara að sleppa hveiti og sykri úr matarræðinu.

tekin héðan

Í fyrsta lagi er sykur eða hveiti í öllu, þegar ég segi öllu þá meina ég í öllu. 
Í öðru lagi líkaminn öskrar á hveiti og sykur
Í þriðja lagi þá hef ég verið þung á brún alla vikunaLífið verður ömurlegt án sykurs og hveitis og ég hef þurft að hafa mig allan við að hressa sjálfan mig við auk þess að hafa allt á hornum mér. Núna er þetta ögn auðveldara og ég hugsa að næsta vika verði mun léttari. Það munaði að vísu engu að ég skutlaði mér í næstu sælkeraverslun, sunnudaginn var, til þess að baða mig upp úr súkkulaði, smjöri og sykri. Þá rann upp fyrir mér að þó að ég sleppi hveiti og sykri þá hef ég mjög mikla þörf fyrir nammidaga. Ég gúffaði því í mig kókosdöðlum og svo fann ég hráfæðis-orkustöng sem jafnaðist á við mars og tókst að komast í gegnum daginn án þess að falla. Það var stór áfangi því ég fell alltaf. Ég held þetta út í þrjá til fjóra daga svo fell ég og þá úða ég í mig sælgæti og bakarískruðerí. 

Helsta ástæðan fyrir því að þetta gengur núna upp er að ég gerði veigamikla breytingu í hugsunarhætti. Yfirleitt þá segi ég við sjálfan, jafnvel þó að þér mistakist þá skiptir mestu máli hvað þú gerir eftir fallið. Hvort að eini súkkulaðimolinn verði að 300 molum. Þá hef ég lagt í hann og vonast eftir  að ég haldi átakið út með bros á vör. Núna þá viðurkenndi ég fyrir sjálfum mér að ég mun líklegast alla daga vilja hlaupa út í búð og kaupa mér sykur í tonnavís. Það sem gerist yfirleitt er að hugmyndin kviknar út af einhverju smávægilegu, svo mallar hún í huganum þangað til að ég er fallin í huganum og þá er það eina í stöðunni að fara út í búð og kaupa fjandans snúðinn. 

Núna tek ég á þessu líkt og með reykingarnar, það sem skiptir máli er ekki hvað ég geri eftir að ég er fallin heldur hvað ætla ég að gera þegar hugmyndin kviknar og hún mun kvikna oft og mörgum sinnum á dag. Það sem ég hef gert hingað til er að forðast ákveðnar aðstæður,  spyrja sjálfan mig þegar ég veit að kökur og gotterí er á boðstólnum, treystir þú þér til þess að fara þangað og ekki borða hveiti og sykur. Reyna að sjá fyrir mér aðstæðurnar, hvernig verður þetta ef ég borða ekki og svo framvegis. Aðalmálið er þó sætta mig við að þessar hugmyndir munu kvikna, ég mun þurfa að þrauka í gegnum það, ég þarf að segja við sjálfan mig að það sé ekki í boði og ef allt að ofantöldu virkar ekki þá hringi ég í eiginmanninn. Segi honum að ég sé að springa á limminu og hvað ég eigi að gera og svo framvegis. Auk þess setti ég tímamörk, þetta byrjar þennan dag og endar þennan dag. Þá veit ég að þetta mun taka enda og svo verðlauna ég sjálfan mig ríkulega eftir hvern dag. Fyrir hvern dag, fyrstu tvær vikurnar, þá fæ ég smá pening  (500 kr) til að eyða í algjöran óþarfa. 

Hingað til hefur þetta virkað og sykurþörfin hefur pottþétt minnkað um helming ef ekki meira. Ég er öll að koma til í skapinu og bjartsýn um að ég nái að halda þetta út. 

Þetta hefur ekki haft nein stórkostleg áhrif á gigtina, því miður. Ég byrjaði vikuna mjög illa, eiginmaðurinn þurfti að vera heima á mánudaginn því ég treysti mér ekki til þess að vera ein með snúlluna. Núna er ég aðeins skárri en fæturnir eru mér mjög erfiðir, ég á erfitt með gang (í íbúðinni), get setið takmarkað, miklir verkir fyrir ofan ökklana, erfitt að sofna fyrir verkjum. 

No comments:

Post a Comment