Sunday, February 3, 2013

Horft tilbaka

Síðustu daga hef ég lesið mikið um gigt, aðallega hvað er hægt að gera til að losna við þennan fjanda. Ég er með sóríasisgigt, þó hagar hún sér engan veginn í samræmi við það. Sumt passar, annað ekki. Ég man fyrst þegar ég veiktist, það liðu um þrjár vikur frá því að ég kenndi mér fyrst meins þar til að ég gat ekki lengur gengið, tannburstað mig og svo framvegis. Þá fannst mér þetta alltaf vera tvískipt, annars vegar skerandi sársauki og hins vegar þá gat ég ekki lengur hreyft mig. Fyrst hélt ég að þetta væri bara beinhimnubólga og smá óþægindi í hægri ökkla. Hægri hliðin hjá mér hefur alltaf verið umtalsverð verri heldur en vinstri. Smátt og smátt fikraði sig þetta upp líkamann, mig fór að verkja í hnéin og í kringum þau, mjaðmirnar, neðst í hægri sjalvöðvanum, olnbogann, hendurnar, axlirnar, kjálkann (á tímabili var orðið erfitt fyrir mig að tala sökum verkja), nefið, augun, eyrun. Það var ekki staður á líkamanum sem ég fann til. Hægri hliðin byrjaði að bólgna út, hægri fóturinn er töluvert breiðari heldur hinn.

Fyrsta árið þá svaf ég ekki fyrir verkjum (h2004-2005), annað árið svaf ég en grenjaði nær daglega undan verkjum (h2005-v2006), seinni hluta þess árisins byrjaði að rofa aðeins til og eygði von um að hugsanleg gæti ég sigrast á þessu (h2006). Þriðja árið er í minningu dúndur ár, minni verkir, meiri hreyfigeta, sótti um vinnu (2007). Fjórða árið gekk bærilega, byrjaði að vinna, kom í ljós að 100% vinna var 100% vinna þ.e. ég átti ekkert afgangs þegar ég kom heim (2008). Fimmta árið, var verri eftir heilt ár í vinnu en samt alveg þokkaleg miðað við hvernig ég var í byrjun (2009). Sjötta árið, hætti á lyfjum til að verða ólétt, gekk vel framan af en í okt - nóv voru sárir verkir og skert hreyfigeta orðin viðvarandi (2010) Sjöunda árið var ömurlegt, ég var verri með hverjum degi enda ekki á neinum lyfjum þangað til að ég varð ólétt í júní 2011, þá hókus pókus varð öll önnur og fann tiltölulega lítið fyrir gigtinni alla meðgönguna (2011). Áttunda árið, litla snúllan kom í heiminn seint í febrúar, hókus pókus, daginn eftir fæðinguna mætti gigtin af fullum þunga aftur í hús. Það voru mér sár vonbrigði því ég hafði vonast til þess að geta haft hana á brjósti, við náðum tveimur dögum. Ég byrjaði aftur á lyfjunum og batinn hefur verið hægur, afskaplega hægur. Rétt eins og síðast duga lyfin ekki til þess að ráða að niðurlögum verkja né skertrar hreyfigetu. Því hefur var ýmislegt reynt þetta árið, árangurinn varð því miður ekki svo mikill (2012). Níunda árið, ég á erfitt með að meðtaka hvað tíminn hefur liðið. Í níu ár hef ég fundið til á hverjum einasta degi, átt erfitt með að hreyfa mig og óskað þess að ég verði betri, í dag er ég ekki í vinnu, ég get ekki sinnt öllum þeim skyldum sem fylgja því að reka heimili og ég get ekki farið í göngutúra með litlu snúllunni sem bráðum verður eins árs. (2013).

Vonandi verður 2013 árið þar sem gigtin lætur undan, ég mun lifa dag án verkja og get hreyft mig líkt og meðalgunna. 


No comments:

Post a Comment