Saturday, July 20, 2013

12 vikur í bata?

Ég las þessa grein um daginn og hef hugsað um hana síðan.

Er þetta hægt?

Þrír mánuðir á breyttu mataræði og hviss bang búmm, engir verkir og engin skert hreyfigeta!


Mér gengur vel, ég hef hægt og rólega tekið ýmislegt aftur út og mér líður betur. Ég hef hins vegar aldrei náð þremur mánuðum án sykurs, hveitis, mjólkurafurðar, dýraafurða líkt og drengurinn í greininni. Nú hugsa ég stanslaust um hvernig væri lífið án þess að finna til. Hvernig væri að vakna og finna ekki til. Hvernig væri að geta gengið án verkja?

Hugurinn er algerlega kominn á flug og ég er farin að leggja drög að 5 kílómetra hlaupi næsta sumar. 5 kílómetrar, ég get ekki gengið í 5 mínútur. Hvað ef það óhugsandi gerðist og ég héldi út í þrjá mánuði svona strangt matarræði. Hvað myndi gerast? Yrði ég 10 kílóum léttari og hlypi út um allt?

“Mommy,” he said, “my knees don’t hurt anymore”

Þessi setning situr í mér. Mér er ekki lengur illt í hnjánum! Verkir og sársauki hafa fylgt mér síðustu níu ár. NÍU ÁR. Ég hef fyrir löngu gleymt því hvernig verkjalaus líkami er, hvernig það er að getað hreyft sig án þess að finna til. Er von? Er þetta hægt?

Ég vil óð prófa jurt.- , glútenlaust, mjólkurafurðafæði í þrjá mánuði og sjá hver árangurinn sé. Vandinn er að mér tekst aldrei að halda neitt út! Ég gefst ALLTAF upp! Misgóðar ástæður sem leiða til þess að ég hætti og þarf að byrja aftur á nýjan leik. 

Tuesday, July 9, 2013

Vegan á nýjan leik

Enn veik, enn feit, enn illt, enn döpur


Ég vildi að hlutirnir væru öðruvísi. Ég væri frísk, grönn, glöð, án verkja og létt í lund. Einu sinni fyrir langa löngu þá var ég alltaf glöð, okei, kannski ekki alltaf glöð en ætíð létt í lund. 

Æi, þetta átti nú ekki að vera sjálfsvorkunarpistill heldur ætlaði ég að tala um daginn í gær. Mér hefur versnað mjög mikið að undanförnu. Þá þýðir ekkert annað en að bretta upp ermar og hefjast handa á nýjan leik. Síðasta vetur þá var ég mjög duglega að prófa mig áfram með ýmsa hluti, sumt virkaði, annað ekki. Helsti gallinn var úthaldið, ég sprakk alltaf á limminu EN engu að síður þá var eitt og annað sem ég áttaði mig á. 

Líkt og að:

drekka engiferseyði
gerast grænmetisæta-vegan
borða hráfræði
jógaæfingar

eru allt dúndurleiðir til að halda verkjum í lágmarki

Þannig að ég í gær byrjaði ég á nýjan leik að feta mig áfram í vegan-isma. Ég að sjálfsögðu var illa undirbúin og í augnablikinu á ég mjög erfitt með að hreyfa mig. Komst því hvorki í búð né gat eytt ómældum tíma í að dúlla mér við að útbúa fínar máltíðir. Engu að síður þá komst ég í gegnum daginn. Var reyndar orðinn mjög svöng um kvöldið. 

Einn dagur af vonandi mörgum í veganisma.