Friday, January 31, 2014

Að ná áttum á nýjan leik

Ég játaði um daginn fyrir umheiminum. Játningin var reyndar ekkert svo mikil játning því ég sagði bara frá veikindum mínum engu að síður var tók ég skref inn í nýjan veruleika. Ég hef í gegnum tíðina reynt að setja veikindi mín, glímuna við sóragigt í aftursætið. Ég vildi ekki verða gigtin og vildi ekki að veikindi myndu heltaka líf mitt. En auðvitað hefur lífið mitt meira og minna snúist um glímuna við gigtarfjandann. 

Líf mitt hefur verið mjög erfitt eftir meðgönguna. Lyfin virkuðu ekki sem skyldi og ég náði litum bata. Sem þýðir ég hef verið undirlögð af verkjum og skertri hreyfigetu síðustu tvö ár. Þökk sé nýjum lyfjum þá sér nú til sólar. 

Á tveimur mánuðum hefur líðan mín stökkbreyst. Fyrir það fyrsta þá er ég ekki jafn kvalin líkt og ég var. Ég get gengið um íbúðina og jafnvel gengið aðeins frá eftir okkur. Ég get þó enn ekki hreyft mig, um leið og ég reyni lítilega á mig, blossa upp verkir og ég hætti að geta hreyft. Ég er marga daga að jafna mig eftir einföld verk. Verk eins og halda á lyklakippu, leika með tuskudýr, fara í stuttan göngutúr, skrifa á tölvu. Það mun að öllum líkindum taka mig viku að jafna mig á að skrifa þessa færslu. 

Síðustu tvö ár hafa verið mér erfið...

Ég gafst upp, ég missti baráttuþrekkið, ég efaðist um þau meðöl sem ég hef beitt gegn gigtinni, ég hætti að taka ábyrgð á sjálfri og fjöslkyldu minni, ég missti trú á sjálfan og ég missti von. Það kemur meira til, hálfu ári eftir að ég átti brotnaði ég niður. Draugar fortíðar öskruðu hátt og ég get ekki lengur flúið þá. Vinur minn nauðgaði mér þegar ég var um tvítugt, dæmigerð vinanauðgun, ekkert líkamlegt ofbeldi. Ég brást við með sama hætti og svo margar á undan mér. Hélt andlitinu og lét sem ekkert hefði ískorist, planið var að hugsa aldrei aftur um þetta og halda áfram með líf mitt. Það var hægara sagt en gert. Uppgjörið við nauðgunina tók mikið af mér. Það dró úr mér allan mátt, allt baráttuþrek, ég átti ekkert afgangs til að berjast gegn gigtinni. Ofan á það bættust síðan hjónabandserfiðleikar. Það er kannski ekkert skrítið að baráttan við gigtina varð afgangsstærð því lítil snúlla var einnig mætt á svæðið sem krafðist orku og athygli frá mér. 

Ég verð að halda áfram...
Gigtin verður ekki hamin með lyfjunum einum saman
Ég get haldið áfram