Tuesday, September 23, 2014

Í feluleik við sjálfan mig

Í gegnum tíðina þá hef ég ekki viljað velta mér upp úr hlutunum. Ég vil bara hafa hlutina í lagi og ekki velta vöngum of mikið yfir orðnum hlut. Ég líkt og meginþorri Íslendingar hef viljað láta verkin tala. Framan af þá gekk það vel. Það var engin þörf á að horfa inn á við. Ég þurfti ekki að gera upp fortíðina. Eftir því sem fleiri ár bætast í sarpinn, hrukkunum fjölgar og reynslan eykst. Fjölga þeim stundum sem mitt hyggjuvit ræður ekki við. Viðtók tímabil þar sem ég þurfti að krukka í mér, horfa inn á við, skoða hegðun mína til að ég gæti þroskast, dafnað og tekist á við miserfið verkefni.

Í dag þá er ég komin með svo mikin leið á sjálfskrukki, naflaskoðun og vildi að ég gæti bara dregið strik í sandinn og byrjað upp á nýtt.

35 kg ofát (sem stendur enn yfir), eitt taugaáfall og þunglyndi hafa þó sýnt mér að það er ekki flúið undan sjálfu sér.

Ég gæti reynt að halda áfram á sömu braut líkt og þegar ég var 18 ára en ef ég tækla ekki hlutina þá finnur vanlíðan, eymdin sér annan farveg.

Martröðin sem ég svo snilldarlega pakkaði niður og setti upp á hillu og ætlaði að aldrei aftur að hugsa um lét mig ekki í friði fyrr en kvíðinn var orðinn svo geigvænlegur að ég fór ekki út úr húsi.

Að standa ekki með sjálfum sér, að setja ekki öðru fólki mörk að tapa sjálfstæði sínu, að þora ekki að taka slaginn við ótta af höfnun ruddi sér braut með hömlulausi 35 kg áti. 

Vanmáttartilfinning, vonleysið, örvæntingin sem fylgir löskuðum líkama hverfur ekki þó að ég stingi höfðinu ofan í sandinn. Ég hætti ekkert að vera veik þó að ég hugsi illa um mig. Þó að sjúkdómurinn leggist í dvala þá verð ég aldrei frísk. Ég veiktist, Ég er veik. Ég þarf að sætta mig við það, takast á við tilfinningarnar sem því fylgja.

Tómleikinn sem hefur nagað mig að innan undanfarin ár, hann fer ekkert nema að ég skori hann á hólm.

Þó að ég vildi óska að ég þyrfti ekki að standa í þessu bulli, að ég gæti bara vaknað og haldið áfram með líf mitt eins og ekkert hafi ískorist. Þá get ég það ekki.

ég þurfti að vinda ofan af sjálfsniðurrifinu sem var á fullu gasi í höfðinu á mér
ég þurfti að horfast í augu við martröðin og takast á við afleiðingar hennar.
ég þarf að díla við afleiðingar gigtarinnar á hverjum degi, takast á við hvern dag með verkjuð og með skerta hreyfigetu
ég þarf að komast yfir óttann að vera bara ég
ég þarf að öðlast sjáflstæði mitt aftur, að þora að vera ein og óháð

No comments:

Post a Comment