Sunday, March 15, 2015

Morgnarnir eru verstir nema þegar kvöldin eru verst. 
Ég þoli ekki lengur við, ég á erfitt með að finna leið til að höndla sársaukann. Oftast nær get ég bægt sársaukanum frá mér yfir daginn. Hann er þarna en ég er orðin það ´góð´að ég get sett hann til hliðar, næ að einbeita mér að öðru, gera aðra hluti. Það er engin undankomuleið á kvöldin, það er eins og sársaukinn bíði færis og stekkur fram á leiksviðið af fullum krafti. Bamm, bamm, búmm, bamm. Ég reyni að hugsa kvalirnir í burtu, ég reyni að leiða hugann frá þeim, teygja á aumum liðum, anda mig í gegnum sársaukann. Baráttuþrekið minnkar við hvert skipti og ég finn hvernig ég missi vitið smátt og smátt við hverja sársaukabylgju, ég get ekki meira.

Endalausir tilraunir til þess að ná bata, hver tilraun hjálpar til að halda í vonarglætu um að einn daginn endurheimti ég líkamann úr helju. Þrátt fyrir að engin tilraun hafi borið árangur, ég er ekki jafn vongóð í upphafi nýrra tilraunar líkt og ég var fyrir tíu árum. Skipsbrot hverrar tilraunar tekur sinn skerf af voninni og tíu löngum árum seinna er vonarpokinn orðinn lítill. Í stað vonar er kvíði og vonleysi í upphafi. Kvíði og vonleysi og yfirgengileg afbrýðissemi út í alla sem vakna á morgnan án sársauka, sem sofna á kvöldin án verkja, sem án umhugsunar geta gengið í búðina.

Efsasemdirnar láta á sér kræla um leið og ég vakna, ég ætti nú ekki að standa í þessu, hvers vegna ekki bara að byrja á morgun, það verður svo mikið af kökum. Kökum sem þú ert búin að fá þér milljón sinnum áður, kökur sem þú hefur ekki nokkra einustu stjórn á þér þegar þú byrjar að borða. Langar þig til að fara í tvö afmæli í dag og missa algera stjórn á þér, aftur og aftur og aftur. Einu sinni enn, fá skömmustutilfinninguna yfir þig alla. Spyrja þig síðan í lok dags, af hverju ekki í dag?

No comments:

Post a Comment